Saturday, December 07, 2002

Hjálpsemi
Anna, mín heittelskaða, er á 3.ári í sálfræði og gengur frábærlega hjá henni. Í einu námskeiðinu átti hún að gera rannsókn. Hún ákvað að taka fyrir hugtakið hjálpsemi. Rannsóknin fór fram í húsnæði Háskólans á Akureyri og í húsnæði Háskóla Íslands. Anna útbjó umslög með áletrun einhverrar skrifsofu innan háskólanna. Bréfin voru ýmist merkt með ,,ÁRÍÐANDI" (með rauðu letri efst í hornið) eða bara merkt án ,,áríðandi". Anna fór í spæjaraleik og dreifði bréfum en passaði sig þó á því að dreifa ekki bréfum þar sem möguleiki var á því að sami einstaklingur gæti séð fleiri en eitt bréf. Anna talaði við viðkomandi skrifstofur um að halda bréfunum sem skilað var til haga. Til að gera langa sögu stutta var áberandi meiri skil í HA. Nemendur og starfsfólk HA tóku bréfin og fóru með þau á viðkomandi skrifstofu. Það var líka gert við HÍ en í mun minna mæli. Nemendur HA skila sko sínu en afskiptaleysi sunnanmanna er áhyggjuefni. Lifið heil.........
helv....tölva
Það er eitthvað vesen með heimilistölvuna. Ekki verður mikið um blogg næstu daga en að er vonandi að þetta komist í lag. Get þó bloggað í vinnunni.
Í kvöld
Ætla ég að hitta stórvin minn hann Atla Hafþórs. Hann er komin í borg óttans og munum við félagarnir líta í einn öl eða 8.
Þrif
Í morgun tók ég mig til og þreif íbúðina hátt og lágt. Það tók mig rúman klukkutíma og var ég nokkuð sáttur við árangurinn. En það er nú þannig hjá mörgum Íslendingum að þeir halda að þeir muni halda jólin inni í skáp eða undir skáp. Fyrir jólin er öllu tjaldað til og öllu hent út úr skápum og þeir þrifnir, skápar teknir af sínum stað til að þrífa undir þeim o.s.frv, en til hvers? Ættingjar sem koma í heimsókn lyfta ekki undir skápinn og kíkja undir hann, eða hvað? Þetta jólastúss gengur oft á tíðum út í allt of miklar öfgar, hingað og ekki lengra og það á að þrífa þar sem sést.

Friday, December 06, 2002

Gaman að þessu
Þegar ég tók þá ákvörðun að gerast bloggari gerði ég mér enga grein fyrir umfangi þessa heims. En allur þessi risastóri netheimur kom mér skemmtilega á óvart. Ég er tiltölulega nýr bloggari en hef gaman af þeim viðbrögðum sem ég fæ, bæði frá vinum og kunningjum sem og frá einstaklingum sem ég þekki ekki neitt. Þessi náungi ,,kommentar" oft á ,,kommentakerfið" og þykir mér vænt um það. Ég hef gaman af því að lesa bloggið hans og því tek ég þá ákvörðun að ,,linka" á hann þó ég þekki hann ekki. Þessi bloggari kallar sig orminn.
Farðu að reikna
Ég hef áður farið fögrum orðum um Guðna Ágústsson vin minn hér á blogginu. Enn ætla ég að dásama þennan frábæra stjórnmálamann og húmorista. Í dag var Ágúst samfylkingarháskólaprófessor eitthvað að bauna á Guðna á þinginu. Guðni svaraði fyrir sig af sinni alkunnu röggsemi og rak síðan Ágúst upp í Háskóla að reikna. Sögur segja að Ágúst hafi látið sig hverfa.......
Karlremba
Hvað er það? Er eitthvað til sem heitir karlremba í dag? Íslenskir karlmenn eru í tilvistarkreppu, vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Kvenmenn vilja hafa karlmenn svona og svona, stundum að gráta og stundum að vera jaxlar, það er engin millivegur. Síðustu áratugi hafa konur verið svo uppteknar að fara út á vinnumarkaðinn og valta yfir karlmenn að við erum eftir í kuldanum. Við látum vaða yfir okkur. Ég er ekki að segja það að það hafi verið slæmt þegar konur fóru út á vinnumarkaðinn, þvert á móti var það mjög gott. Konur eru gjaldgengar í flest þau störf sem karlar hafa ,,venjulega" starfað við. En um leið og þessi byglgja fór af stað sem ekki sér fyrir endan á er traðkað á hinum íslenska karlmanni á skítugum skónum. Auðvitað eiga þeir sem vinna sömu vinnu að fá sömu laun, annað er misrétti en þegar svoleiðis misrétti á sér stað er öll karlþjóðin stimpluð sem karlrembur. Það nær bara ekki nokkurri átt. Svo er einkennilegt að þegar konur og karlar sækja um starf og konan er ráðin þá fer engin karlmaður í mál og kærir það, ó nei, en þegar karlinn er ráðinn þá fara konurnar í mál því þær hafa verið beittar misrétti, come on. Eitt fáránlegasta dæmi sem ég veit um var þegar 12 sóttu um að fá inngöngu í slökkviliðið, þar af var ein kona. Það var EIN laus staða. 11 einstaklingar þurftu að bíta í það súra epli að fá ekki inngöngu í slökkvilið RVK. Inntökuprófið byggðist á líkamlegum þætti og bóklegum. Til að gera langa sögu stutta þá fékk karlmaður inngöngu, 10 karlmenn þurftu að fara heim og þessi eina kona. Þessi kona ákvað að hér væri klárlega misrétti og brot á jafnréttislögum, hún fór með málið í blöðin og fjölmiðlar gerðu mat úr þessum fíflagangi. En þetta brann fljótt út og ekki veit ég hvað þessi kona er að gera í dag.
Áðan sagði ég að konur væru gjaldgengar í FLEST þau störf sem venjulega hafa verið kallað karlastörf. Ég er ekki á því að hvaða kona sem er geti verið á sjó. Það er eins með karlana svo sem, það er ekki hver sem er sem getur verið á sjó. Eins er það með íþróttafréttamenn sem lýsa kappleikjum, ég er á því að það sé sniðið á karlmenn. Auðvitað gætu konur sem hafa brennandi áhuga sinnt þessum lýsingum en ég hef ekki heyrt það enn.
En ég er ekki karlremba enda er ég ekki á því að þetta hugtak hafi einhverja merkingu í dag. Þetta hugtak er dautt og ef við karlmenn förum ekki að taka okkur á, þá mun karlmennskan deyja út.
Lifið heil
Mikið er gott.....
.....að vera komin í helgarfrí. Það er róleg helgi framundan hjá mér. Þarf að vísu að vinna smá en annars eru það rólegheitin sem ráða ríkjum. Anna mín er að læra og læra. Við ætlum samt að gefa okkur tíma og sjá Bondinn í bíó í kvöld.
Það er einkennilegt........
..........að þegar maður hringir í foreldra þá búast þau við hinu versta. Þau eru með öndina í hálsinum ef kennari hringir heim. Þessu vil ég breyta og er farinn að hringja reglulega í foreldra og hrósa börnum, segja jákvæðu punktana og segja frá framförum. Það er nauðsynlegt að gera það, ekki sí og æ að horfa á það neikvæða. Lifið heil.

Thursday, December 05, 2002

James Dean
Á vídeóleigum bæjarins er að finna nýja mynd sem er byggð á ævi James Dean. Það fer ekki mikið fyrir þessari mynd, hún felur sig á milli Spidermans og Men In Black 2 en hér er á ferðinni gæðamynd sem óhætt er að mæla með fyrir vandláta. James Dean var merkilegur persónuleiki sem endurspeglast frábærlega í þessari mynd. Aðalleikari myndarinnar er skuggalega líkur Dean. Ef þú tekur sjaldan mynd en gerir það þó annað slagið, taktu þá eftir kvikmyndinni ,,James Dean" á þinni leigu.

Atli eðalsjóari.....
.....er byrjaður að blogga. Kíkið á síðuna hans. Ég fagna komu Atla Hafþórs á bloggið.
Oft býr mikið vit í litlum búk
Æska þessa lands er ekki í þeirri hættu sem margir vilja meina að hún sé í. Börn eru yndisleg og svo margt gott sem þau eru að gera. Ég kenni nemendum í 5. og 7. bekk og umgengst allt þar á milli. Það eru framtíðar stjórnmálamenn, leikarar, kennarar, sjómenn, tölvufræðingar, rithöfundar, framkvæmdarstjórar, öskukarlar, fóstrur, skólastjórar, fyrirsætur, flugmenn, flugfreyjur, þjónar, bakarar, ritarar o.s.frv. í þessum hóp. Börn hafa svo mikið að segja og hafa svo skemmtilega sýn á lífið, það eru við fullorðna fólkið sem erum að spilla þessum litlu hugsuðum með tölvum, vídeó, nammi og allt það sem börn vilja fá. Af hverju vilja börnin þetta? Af hverju vilja þau ekki lesa eða vera í leiklist? Þau fá allt upp í hendurnar, áreitið frá umhverfinu er það mikið að börnin gleymast. Mamma og pabbi þurfa að vinna svo mikið að það er keypt leikjatölva til að hafa ofan af fyrir börnunum, fussum svei. Ég verð ekki ánægður fyrr en foreldrar setji strangar reglur með þessar tölvur sem eru að tröllríða æsku þessa lands.
Oft vill það verða þannig að börnum leiðist í skólanum og metnaðarleysi gerir vart við sig. Hvað getum við þá gert? Ég hef ekki svör á reiðum höndum en ég er að stefna að því að börnum finnist gaman að koma í skólann og læra og tala saman. Í dag vorum við að vinna með hugtök eins og snyrtimennsku, heilsu, kurteisi, hamingju og tillitsemi. Nemendum var skipt í hópa og áttu þau að túlka þessi hugtök leikrænt án orða. Það gekk frábærlega. Börnin höfðu gaman að þessu enda hef ég markvisst unnið með hópa og leikræna tjáningu. Kennarar fara oft einföldu leiðina, þ.e. kenna á bókina. Taka lesbók í íslensku og kenna hana frá A - Ö. Það eru ekki góðir kennsluhættir. Kennarar þurfa að hafa þor og dug að breyta til. Vinna með börnum, ekki messa yfir þeim. Börn eru yndislegir einstaklingar sem þarf að virkja og vinna með. Það býr svakalega mikið í æsku þessa lands og við megum ekki gleyma þeim. Þau verða svo útundan ef við ætlum að vinna svona mikið og fá nýjasta playstation leikinn sem barnapíu. Því segi ég að það býr mikið vit í litlum búk.
Lifið heil.
hey
Af hverju kemur ekki ,,kommentakerfið" upp? Jói, HJÁLP........
Hetjur þessa lands....
........eru tvímælalaus sjómennirnir okkar. Nú eru þeir í bræluskít út á Hala eða í lúðu út á Torgi, já, við ættum að hugsa til þeirra í þessu veðri. Það er ekki skemmtileg vinnuaðstaða þegar það gefur á bátinn, þá er oft erfitt og menn skapstyggir, en þeir eru að afla tekna fyrir þjóðarbúið og það er vel. Ég tek alltaf ofan fyrir sjómönnum þessa lands. Óþolandi að heyra menn sem aldrei hafa migið í saltan sjó segja að nú eigi að afnema sjómannaafsláttinn og sjómenn hafa svo góð laun. Málið er að þegar túrarnir eru góður kemur það í fjölmiðlum, en þegar lítið fiskast er ekki sagt orð um það. Dæmi: Frystitogarasjómaður sem á konu og 2 börn fer á sjó í byrjun september og það fiskast fyrir 70 milljónir og stímt í land í lok september. Þessi sjóari fær um 700.000 krónur í heildarlaun og þá á eftir að taka skatt. Sjóarinn fer á sjó í byrjun október og það fiskast illa og eingöngu tryggingin sem er borguð (trygging sjómanna er um 100000 krónur) og það er stímt í land í lok október. Síðan fer þessi sjóari í frí í byrjun nóvember (launalaust) og svo aftur út á sjó í byrjun desember. Kemur í land á Þorláksmessu. Þessi sjóari hefur því ekki haft laun í nóvember og desember.
Sjómenn þurfa að treysta á fiskinn og ef hann finnst ekki þá verður hart í ári. Ekki segja að sjómenn hafa svo góð laun, þeir hafa jú laun sem eru í lagi en ég er á því að laun sjómanna eiga að vera hærri. Þeir eru á sjó mánuðum saman frá fjölskyldum og vinum. Sjómenn eru hetjur þessa lands, það er engin spurning.
Borg óttans
Reykjavík er í öskrandi vondu skapi í dag, leiðindar rigningarborgarveður, þung umferð, lélegt skyggni, pirrað fólk að flýta sér, holur í götum (R - listastjórn - fnusssss) og fleira. Það er ekki gaman að vera lítill og saklaus sveitastrákur í borg óttans þegar hún er í þessum ham. Mæli með því að fólk haldi sig innan dyra og hunsi þessa borg, allavega í dag. Hægt er að fara inn á þessa síðu til að fá kyrrð og frið. Takk fyrir.
Vettvangsferðir
Þegar ég var í grunnskóla fannst mér alltaf gaman að fara eitthvað með bekknum, hvort sem það var í fjöruferð eða rútuferð á einhvern stað. Næstu daga verð ég á ferð og flugi með 7. og 5. bekk. Á morgun fer ég með 7.bekk í vettvangsferð í Morgunblaðið. Þar munu þau sjá hvernig fréttir verða til og prentsmiðjuna o.s.frv. Á mánudaginn fer ég með 5.bekk í sögusagnið í Perlunni, þar sem þau sjá vaxmyndir af landnámsmönnum og fleira. Ég mæli með þessu safni, endilega kíkja á það ef þið hafið tíma. Á miðvikudaginn fer ég síðan með 7.bekk í DV og þar sjáum við blaðamenn að störfum. Sem sagt, mikið að gera framundan.

Wednesday, December 04, 2002

Hjalti Valþórs
Hjalti vinur minn úr MA er byrjaður að blogga.Því fagna ég og fleiri. Skemmtilegt að lesa hugleiðingar hans.
Nýjar myndir
Það koma reglulega nýjar myndir inn á þessa síðu, myndir að úr skólalífinu, endilega kíkið á þær. Þessi mynd er af því þegar við gerðum okkur glaðan dag í tilefni 1.des. Ég er með Jóhönnu á háhest, hún er í 7.bekk V (mínum) og átti afmæli. Mér fannst tilvalið að henda henni á háhest og fá skólann til að syngja fyrir hana. Nemendur voru staddir í íþróttahúsinu í fjöldasöng. Það var ekki laust við að hún hafi farið pínu hjá sér enda athyglin á henni. Gaman að þessu, haaaaaaaaaa.


Jólalagið í ár......
......er tvímælalaust lagið sem félagarnir á Kleifaberginu sendu frá sér fyrir þessi jól. Það er sí og æ verið að spila það í útvarpinu enda er textinn snilld. Textinn er gamantexti um sjómenn og jólaundirbúning en á ekki endilega við sjómenn. Lesið textann og syngið með (lagið - Meiri snjó)

Í friði og ró
Þegar líða fer að jólum
öll þjóðin er á hjólum,
líður mér best í ró
út á sjó, út á sjó, út á sjó.
Þegar konan þarf heima að vaka
við að skúra skrúbba og baka,
kúri ég sæll í ró
út á sjó, út á sjó, út á sjó.

Þegar kemur svo kall í land
hann vill að húsið sé komið í stand.
Allt sé búið – ei eftir neitt,
já, skínandi bónað og skreytt.
Svo þegar búið er skaupið
og þarf að taka niður skrautið,
verð ég kominn í frið og ró
út á sjó, út á sjó, út á sjó

Föndur
Jæja, þá er komið að því, föndrið fyrir jólin að fara að byrja.Herlegheitin byrja í næstu viku og eins og þeir sem til mín þekkja hef ég nú ekki verið þekktur fyrir handlagni, en jæja, ég hlýt að klóra mig fram úr þessu. Nemendur eiga líka að skreyta stofuna og það verður samt stuð, ég kem með Elvis jóladisk og við hlustum á hann, hmmmm, er það áróður? Neineinei, sussum svei, Elvis er kóngurinn, það vita allir trallalalla. Skreytum hús með grænum greinum fallerallerafalleralla..................

Tuesday, December 03, 2002

Changing Lanes
Fór með Jónasi vini mínum á stórfína kvikmynd í sambíóunum. Johnny vildi ekki fara á Harry Potter svo við skelltum okkur á Changing Lanes. Mæli með henni.

Bíó
Ég ætla að fara á kvikmyndina Changing Lanes í kvöld. Hef fengið Jónas Pilot til að koma með mér. Mojo veit ekki enn hvort hann ætli að koma en ég plata hann með. Annars er langt síðan ég hef hitt pilotinn, það verður gaman að hitta hann loksins.
Þá er það búið
Þá er ég búin í þessu prófi sem ég var að taka við HA en tók það í HÍ. hmmm, þ.e.a.s. próf frá HA en tók það í húsnæði HÍ, skiljanlegra? Það gekk þolanlega að ég held, 3 einingar þar og 3 einingar hér og fyrr en varir er þetta allt komið. Annars er afslöppun í dag hjá mér. Fékk frí í vinnunni og það er búið að vera erfið törn þannig að það er rólegt hjá mér. Skrepp í búð á eftir og kaupa mér jóladisk og svona. Anna mín er á fullu í lærdómnum, hún er svakalega samviskusöm enda einkunnirnar eftir því, go Anna.

Monday, December 02, 2002

Jólalög
Nú eru jólalögin farin að hljóma um borg og bæ. Eitt nýtt lag var gefið út fyrir þessi jól. Að vísu er lagið ekki nýtt en textinn er það. Lagið er með áhöfninni á Kleifabergi frá Ólafsfirði. Endilega hlustið eftir þessu lagi, frábært lag og texti. Þeir selja þetta lag á geisladiski til styrktar Regnbogabörnum. Frábært framtak hjá þeim á Kleifabergi. Lagið heitir ,,Úti á sjó" og fjallar um það hvað sjómennirnir eru nú fegnir að missa af þessu jólastressi, koma í land á Þorláksmessu og fara á sjó 2. jan. Já, svona er sjómannslífið í dag.


Piparkökur með rjóma
Þegar ég var lítill fór ég stundum í heimsókn til langömmu. Hún gerði ekkert smá góðar piparkökur. Hún hafði samt þann sið að þegar hún bauð uppá piparkökur hafði hún líka þeyttan rjóma með. Það er ekkert smá gott að setja rjóma ofan á piparkökur. Þið sem hafið ekki prófað það, endilega gerið það. Mæli með því. Smá jólaráð nú þegar það eru 22 dagar til jóla. Danke Schön.
Heyrðu
Á ég ekki að vera að læra????????
Sjóari
Atli Hafþórs stórvinur minn sendi mér meil í gær þar sem hann sagðist hafa fundið mig á blogginu. Ánægjulegt að hann lesi þetta reglulega. Hér með skora ég á Atla sjóara að byrja að blogga, ha. Gaman að því. ,,Sjómannslíf, sjómannslíf ástir og ævintýr...."

Sunday, December 01, 2002

Er líða fer að jólum, og hátíð fer í hönd......
Söng Ragnar Bjarnason hérna í gamla daga. Nú styttist í jólin og ég er búinn að fá jóladagatal. Mín heittelskaða keypti eitt slíkt fyrir mig. Það var lest í númer 1. Svaka spennandi að vita hvað er á morgun, ha. Ég sé að Gummi og Guðrún Birna eru búin að setja seríu, flott hjá þeim. Það verður lítið skreytt hér hjá okkur þar sem Anna er í prófum og ég á fullu í vinnu + eitt próf á þriðjudaginn. Svo fer Anna norður í kringum 12.des. og þá verð ég einn í kotinu og læt mér nægja að horfa á jólaljósin hjá hinum. Svo kemst ég í langþráð jólafrí 20.desember.
Í fyrsta skiptið mun ég ekki halda jólin heima hjá mömmu og pabba og systkinum. Ég verð með Önnu minni og sonum hennar. Ég er bara orðinn fullorðinn. Ég hlakka ekkert smá til. Nú kemur maður að jólunum frá öllum hliðum, það er breyting frá því að koma heim til mömmu og pabba og fá matinn á borðið og kökurnar og allt það. Nú bakar maður, planar mat og veislur, skrifar jólakort með öðrum, kaupir gjafir með öðrum og fleira og fleira. Já, það er ekki laust við að ég sé bara stoltur og sáttur með allt og alla. Ekki það að ég hafi ekki haft það frábært á jólunum heima, heldur tekur við nýr kafli í lífi Valda Víðis. Nýir og spennandi tímar framundan.
Lifið heil.
Rökræður
Það er skemmtilegt að rökræða. Sérstaklega ef hluteigandi aðilar hafa góð rök fyrir sínu máli. Þá er skipst á skoðunum í mesta bróðerni. Ég er það heppinn að þetta á við um alla mína vini og kunningja.
Fróðleikur á sunnudegi
Vissu þið.........
.........að fámennt var við stjórnarráðið þann 1.des. 1918 vegna veðurs og spænsku veikinnar?
.........að sumarið 1983 mætti fjöldi fólks fyrir utan Veðurstofu Íslands til að mótmæla vondu veðri (sennilega vinstri menn)?
.........að þegar lagið ,,Það er allt á floti" kom út var það bannað í útvarpi? Það þótti of dónalegt.
.........að við gengum í NATO árið 1949?
.........að 120000 manns sáu myndina ,,Með allt á hreinu" árið 1982?
.........að Leifur (ó)heppni Eiríksson Rauða fæddist á Vestfjörðum?
.........að það eru 23 dagar til jóla?
Gleðilega hátíð
Þrefalt húrra fyrir Íslandi. Íslenska þjóðremban lengi lifi.