Saturday, November 30, 2002

Agaleysi
Guðmundur stórvinur minn vakti máls á agaleysi barna á bloggíðu sinni. Ég er að mörgu leyti sammála honum um það að agaleysi er mikið en ég er ekki sammála honum hvernig best sé að taka á því. En hverjum er þetta agaleysi að kenna? Sumir segja skólunum og aðrir segja heimilunum. Ég hallast að þessu síðarnefnda. Í dag fá börn svakalega mikið upp í hendurnar. Áreitið frá umhverfinu er geysilega mikið og því miður hafa foreldrar sofnað á verðinum. Égvilégvilégvilégvilégvil fá svona og svona og þetta því þessi á svona o.s.frv. Sem kennari verð ég var við mikið agaleysi. Ég vinn markvisst í þeim málum en nota ekki aðferðir sem Guðmundur vill nota. Ég er ekki á því að það sé heraginn sem dugar, aftur á móti er ég á því að umræður um málið og samtalsaðferðir duga mun betur. Ef nemandi er með læti og er að trufla kennslu á ekki að skamma hann eða hunsa hann, heldur á að spyrja nemandann hvað sé hans hlutverk. Er það hans hlutverk að vera með læti þegar aðrir eru að vinna vinnuna sína? Er það hans hlutverk að trufla kennslu? o.s.frv. Þetta gefst vel og með þessu er ekki gert lítið úr nemendum, eingöngu leiðbeint á rétta braut.
Umræður um virðingu og tillitsemi skila líka árangri hvað varðar agaleysi. Heraginn leysir ekki vandann, það ýtir vandanum á undan sér. Um leið og nemendur komast út tekur við sama agaleysið.
Metnaðarleysi barna er líka áhyggjuefni. Mörgum nemendum er sama um allt og alla. Til að vinna á þeim vanda þarf að finna sterku hliðar þessara nemenda og vinna markvisst með það. Sumir eru ekki góðir í stærðfræði og alveg sama þó svo að þeir gera ekki heima eða fá lágar einkunnir. En þessir sumir eru sterkir í öðru sem þarf að nýta og virkja og um leið og það er gert kemur upp metnaður fyrir námi. Lykillinn að skapandi og skemmtilegu skólastarfi eru fjölbreyttar kennsluaðferðir, leyfa börnunum að njóta sín, ekki hefta þau niður. Með því hverfur agaleysið. Nemendum hlakkar til að koma í skólann og líður vel. Með heraga heftum við sköpunargleði barna.
Lifið heil.
Próf
Það gengur ekki alveg nógu vel að lesa undir prófið sem ég er að fara í á þriðjudaginn. Svei mér þá.
DVD vs VHS
Í gærkvöldi kom Jóhann í heimsókn til mín og Önnu. Meðferðis hafði hann Playstation 2 leikjatölvuna. Ástæða? Við félagarnir ætluðum að horfa á Star Wars - Episode 2. Eins og flestir vita er DVD spilari í þessum leikjatölvum. Tölvan var tengd og allt gott um það að segja. Nema, gæðin í DVD eru svo mikið mikið betri heldur en í VHS að ég skammaðist mín pínu fyrir þetta skíta myndbandstæki sem ég á. Það var bara eins og við værum staddir í Star Wars.
Ég er á því að ég ætla mér að kaupa DVD sem fyrst, það er allt annað líf að horfa á bíómyndir, svo skýrt og flott. Skýrara en sjónvarpið. DVD er málið.............

Friday, November 29, 2002

Linkar
Enn bætast við linkar hjá mér. Rebekka Jóelsdóttir er frá Country bænum Skagaströnd og ég hef gaman af því að lesa hugleiðingar hennar og því set ég hana á listann.
Gsm
Ég er nánast hættur að brúka gsm símann. Betra að nota heimasímann. GSM er yfirleitt á silent eða þá að það er slökkt á honum. Þið sem eruð orðin pirruð á því að ná ekki á mig í gsm ættu að prófa heimasímann. Hann er 5904121. Má kannski ekki segja það á netinu? Jújú.
Komið í ljós
Særún María er gamall MA - ingur og bloggari. Ég bæti henni á linklistann minn. Hún benti mér á það að þessi maður gagnrýndi áfengsital mitt þar sem ég er kennari. Hugsa að þetta hafi verið sett fram í gríni hjá honum, allavega vona ég það.
Kynningar
Nú þegar styttist í jólin fara fyrirtækin að kynna sínar vörur sem aldrei fyrr. Ég fór ásamt minni heittelskuðu Önnu í Hagkaup í Skeifunni í dag. Gengum inn og þar sem ég vill prófa allt nýtt ákvað ég nú að smakka á öllu sem var verið að kynna. Anna segir að ég gleypi auglýsingar alveg hráar og lifi pínu eftir þeim, það getur verið pínu til í því. Allavega:
a) Kynning á kjúklingabollum og sollis, alveg stórfínt.
b) Kynning á birkireyktu hangikjöti, mjög gott.
c) Kynning á kexi og Philadelphiu rjómaosti, þokkalegt.
d) Kynning á grjónagraut sem er tilbúin á 5 mín, mjög sniðugt sko.
e) Kynning á samlokubrauði, venjulegt bara.
f) Kynning á Leppin, allt í lagi.
g) Kynning á piparkökum...........
Allt þetta var kynnt í Hagkaup í dag og á eftir að aukast. Maður ætti að nýta sér þetta ef maður er svangur og fara út að borða í stórmarkaði, svona hér um bil allavega.
Bond, James Bond
20. myndin um James Bond, Die Another Day, verður frumsýnd í dag. Ég er mjög spenntur fyrir henni enda mikill Bondaðdáandi. Ég er á því að Írinn Pierce Brosnan er besti Bondinn. Það er enginn spurning. Svo eru menn að tala um að Tom Hanks eða Robbie Williams eigi að taka við, come on. Það færi nú með Bondinn. Ekki það að Tom Hanks sé slæmur leikari, langt í frá, hann er bara ekki Bond, og hvað þá Robbie Williams. En svona er mín röð af Bondum:
1. Pierce Brosnan
2.Roger Moore
3.Timothy Dalton
4.Sean Connery
5.George Lazenby
Morgunútvarpið á Rás 2
Rás 2 tjaldar til landsliðinu í morgunútvarpinu sínu frá 07:00 - 09:00. Í þessu landsliði útvarpsmanna eru m.a. Magnús R.Einarsson og Gestur Einar Jónasson. Þessi þáttur er frábær, svo einlægur og æðislegur. Það er verið að taka á málum líðandi stundar á mjög opin og skemmtilegan hátt. Í morgun var Tryggvi Gíslason skólameistari MA í viðtali. Hann var ekki í viðtali til að tala um skólamál, heldur James Bond. Viðtalið var gargandi snilld. Tryggvi er hafsjór upplýsinga um Bond og mikill Bondaðdáandi. Morgunútvarpið tekur á alvarlegum málum, léttum málum og allt þar á milli. Ég hvet ykkur til að hlusta á þennan þátt, alveg einstaklega vel heppnaður.
Úff
Þá er þessi dagur búinn, allavega með börnunum. Það var hátíðarhöld út af 1.des og það var bara gaman en mikið tekið á. VIð fórum í ratleik, dönsuðum, fórum á tónleika, hlustuðum á samtímalýsingu frá 1.des 1918 og fleira. Fínn, skemmtilegur en erfiður skóladagur að baki. Nú þarf maður bara að hella sér í lærdóminn. Vona að ég hafi tíma til að horfa á vídeó með Mojo. Vill að við horfum á Star Wars - Episode 2. Ég á eftir að sjá hana.
p.s. Jónas, ég mæli ekki vini mína í röðum. ha, þú ert í innsta hring vina, ekki satt? Verðum samt að fara að hittast við tækifæri.....Þegar við höfum tíma.
Einkennilegt
Einkennilegt þetta komment sem ég fékk um síðustu færslu mína. Það mætti halda að sá/sú sem kommentar þar haldi að ég sé að halda einhverjum ósóma að börnunum. Ætla nú ekki einu sinni að rökræða við svona fólk. Má maður ekki segja sína meiningu, á ég að hætta að blogga því ég er kennari? Átta mig ekki á þessu því að síðasta færsla er langt í frá að vera meiðandi.

Thursday, November 28, 2002

Vodki, romm og annað góðgæti
Ég trúi þessu ekki. Nú ætla vinir mínir á hinu háa Alþingi að hækka verðið á sterku víni um 10%. Það er ekkert smá. Koskenkorva Vodkinn var ódýr en verður nú dýr, það er ekki nógu gott. Vér mótmælum allir. Ekki ætla ég nú að fara í rauðvínssullið, ha. Ég er ekki ánægður. Bévítans, bévítans bara.........
5.bekkur
Ég er að kenna 5.bekk sögu og það er bara mjög fínt. Þau eru að læra um landnámsmenn og þetta eru svo mikil krútt. Í dag voru þau í hlutverkaleik og léku landnámsmenn og þau fóru á kostum. Það býr svakalega mikið í æsku þessa lands sem þarf að nýta, ekki drepa þau með bókum og einstaklingsvinnu, samvinna og leikræn tjáning er lykillinn að mínu mati. Þegar ég verð menntamálaráðherra mun ég setja leiklist í námskrá leikskóla og hana nú. Ég tek mér það Bessaleyfi (þó ekki Bessa Bjarna) að segja það að samvinna er lykill af velgengni í skóla, vinnumarkaðinum, fjölskyldulífinu og allsstaðar.
Fullveldisdagurinn
Enn ætla ég að þusa um fullveldið og langar að segja ykkur nokkrar staðreyndir um þennan dag 1.desember árið 1918.
a) Það mættu ekki margir fyrir framan stjórnarráðið því að spænska veikin geysaði á Íslandi.
b) Spænska veikin lagði rúmlega 500 Íslendinga að velli.
c) 1.des var vont veður í RVK.
d) Efir að fánahylling hafði átt sér stað sungu gestir danska konungssönginn.
e) Eftir það var kallað þrefalt húrra fyrir Danakonungi (hhhmmmm).
Furðulegt
Ég er að reyna að taka til á þessu bloggi en þetta kemur svolítið furðulega út. Ég var að vina að það væri ekki þetta BIL á milli fyrirsagna og ,,vina". Vona að Mojo vinur minn lagi þetta. En þetta er allavega snyrtilegra svona er það ekki?
Bekkjarkvöld
7. bekkur V (minn bekkur) og 7.bekkur E ætla að hittast í skólanum á eftir og horfa á vídeó og panta pizzu. Þau fara að koma. Best að drífa sig og taka á móti krökkunum mínum. Já ég segi mínum, ég er farinn að taka þau pínu inn á mig, ég á svolítið í þeim. Vill fylgjast með þeim og vona að þeim gangi vel. Starf kennarans fer líka út í starf sálfræðings og ráðgjafa, en samt erum við á lágum launum (eina ferðina enn kem ég að því). Þetta eru æðislegir krakkar.
Bush
Jóhann Þórsson vinur minn er sí og æ að tala um hvað Bush sé heimskur. Ég er því algjörlega ósammála, þar að auki finnst mér ,,barnalegt" að taka svona til orða. Þeir þjóðarleiðtogar sem hafa hitt hann, Davíð Oddsonn þar á meðal, bera honum vel söguna. Segja að hann sé vel með á nótunum hvað er að gerast í kringum hann. Auðvitað mismælir hann sig oft á tíðum en það er bara eðlilegt. Bush var ríkisstjóri í Texas í 8 ár og skilaði því með sóma. Það getur vel verið að hann sé ekki með allt á hreinu hvað varðar ummheiminn en hvað er ummheimurinn? Lítum á USA. Í Bandaríkjunum eru 50 fylki og hvert fylki hefur sinn fylkisstjóra. Þessi fylkisstjóri er nokkurs konar forseti í sínu ,,landi". Hvert fylki hefur sín lög o.s.frv. Við getum líkt USA við Evrópu, þar eru mörg lönd með mismunandi þjóðarleiðtoga og lög. Við vitum mikið um okkar land og það sem er að gerast í fréttum og hin meðal Kani veit mikið um sitt fylki og sitthvað sem er að gerast annarsstaðar. Getum við sagt hvaða er stærsra borgin í UTAH? Einhverjir geta það en mjög fáir. Þess vegna er ósanngjarnt að tala um það að Bandaríkjamenn séu heimskir þó svo að þeir viti ekki hvar Madrid er o.s.frv. Bush er bara hin meðal Kani (af góðum ættum og ríkur en látum það liggja milli hluta) sem varð forseti USA. Hann hefur verið að skila sínu verki með sóma. Það er ekki sí og æ hægt að vitna í rithöfunda sem eru á móti Bush. Hvað með þá rithöfunda sem eru honum hliðhollir, það er ekkert talað um það.
Jæja, þá er það teljarinn
Prófa að setja svona teljara á síðuna og athuga svona hvernig það kemur út. Ha, þið verðið að vera dugleg að heimsækja síðuna mína svo að teljarinn fari uppuppuppupp ha..................
Fullveldi
Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku þann 1.desember árið 1918. Við höldum uppá 1.des á morgun. Ég ætla að lesa samtímalýsingu á þessum atburðum fyrir nemendur og láta þau síðan túlka þessa atburði með leikrænni tjáningu. Þau hafa gaman að því. Er það ekki?

Wednesday, November 27, 2002

,,leiðrétt"
Undir NATO hugleiðingum mínum setti ég fána sem er ekki hin opinberi fáni NATO. Setti fána UN inn en kippti honum út vegna athugasemda. Allavega er þetta hin opinberi fáni NATO þó svo að þeir noti fána UN á stundum.
Nei nei Ása, NEI
Hún Ása eðalbloggari, bekkjarsystir og vinkona hefur tjáð sig á athugasemdarkerfniu og tjáð sig um laun kennara. Það er rétt hjá henni að margir í þjóðfélaginu hafi lág laun en það er ekki rétt hjá henni að kennarar hafa ekki lág laun eins og hún vill halda fram. Leikskóla - og grunnskólakennarar eru láglaunastétt. Ég hlýt að vita um hvað ég er að tala enda starfa ég sem grunnskólakennari. Að baki þess að vera grunnskólakennari liggur stúdentspróf og háskólanám, því er eðlileg krafa að kennarar séu með nokkuð há laun. Þeir sem starfa á bak við búðarkassa þurfa ekki til þess neina sérstaka menntun og eiga því ekki að vera í sama flokki og kennarar. Ég er ekki að segja að búðarfólk eigi að vera á lágum launum, auðvitað eiga allir að hana fín laun en kennarar ættu að vera með há laun. Að loknu námi tekur við gefandi og skemmtileg vinna og kennarar þurfa sífellt að sækja námskeið til að byggja ofan á þekkingu sína. Það er slítandi starf að vera kennari og mikið starf. Vinnutíminn er langur. Það er ekki þannig að við kennarar förum heim á sama tíma og börnin, þá þarf að skipuleggja, fara á fundi, fara yfir verkefni, búa til verkefni o.s.frv. Lágmarkslaun kennara eiga að vera í kringum 200000 krónur, það er lágmarkið að mínu mati. Kennarar eru með LÁG laun. Því þarf að breyta.
Sniðugt.........
............þetta athugarsemdarkerfi, menn og konur, stelpur og strákar, afar og ömmur, pabbar og mömmur, frænkur og frændur og allt þar á milli geta þá tjáð sig á síðunni minni, gaman að því.
Erfiður dagur
Þemavika er erfið en skemmtileg. Það er mikið líf í krökkunum og það gengur mikið á og það er gaman. Ég fór líka með þau í nokkra hópleiki með söng og hópefli, það var mjög gaman. En það gerir það að verkum að ég er úrvinda en þarf að fara heim um 16:30 og þá tekur lærdómurinn við. Já, svona er líf kennarans. Gefandi en skemmtilegt. Synd hvað kennarar eru með lág laun, til skammar alveg hreint. Hærri laun kennara og það strax..........
1.des
Hátíðarhöld vegna fullveldisdagsins verða hér í Álftanesskóla á föstudaginn. 1.des. er því haldin hátíðlegur 29.nóvember, skemmtilegt. Sama tíma og árshátíð MA fer fram. Ekki alveg á sama tíma, en sama dag allavega. Málið er samt að ég þarf að gera þjóðrembuverkefni með bekknum um morguninn í rúman klukkutíma og ég er eiginlega tóm tunna í því máli, þ.e.a.s. ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera með þeim. Einhverjar tillögur?????
NATO
Hinir ,,meintu herflutningar" íslenskra flugfélaga fyrir NATO hafa verið milli tannanna á fólki síðustu dag. Það er merkilegt hvað umræðan er á lágu plani og það er stjórnarandstöðinni með Ástþór nokkurn Magnússon fremstan í flokki fyrir að þakka. Það er deginum ljósara og hefur komið fram hjá Flugleiðum og utanríkisráðuneytinu að við erum ekki að fara að flytja hermenn að vopn í farþegaflugvélum. Það er líka svo mikil fjarstæða að láta sér detta það í hug. Þessar 300 milljónir fara í flutning á gögnum eftir að stríðið (ef það verður) er um garð gengið, hjálpargögn og þess háttar. Það er bara tilfellið að VG er á móti NATO og reyna að gera allt til að koma óorði á þessi samtök. Við erum í þessum samtökum og þurfum auðvitað að taka þátt, það er þannig með öll samtök. Við erum ekki sú aðildarþjóð sem leggur ekkert af mörkum. Þessar 300 milljónir er örlítið brot af því sem aðrar þjóðir eru að borga. Steingrímur Sigfússon og Einar K. Guðfinnsson voru í Kastljósi í gær að ræða þetta mál. Undir lok þáttarins var Steingrímur komin í vörn og farin að þvæla um veru okkar í NATO og þróunaraðstoð, en þeir voru ekki boðaðir í þáttinn til að ræða það. Já, svona er Ísland í dag, hin loftlausa stjórnarandstaða er að róa lífróðurinn til að reyna að hífa fylgið sitt örlítið upp.


Tuesday, November 26, 2002

Comment

Koma komment hjá mér?
Mojo
Mojo er vinur minn og Önnu. Svalur gæi frá Keflavík og útlandinu. Hann hefur gaman af Hringadróttinssögu og Geimstríði. Ég var að velta því fyrir mér hvort þessi svali gæi getur sett svona athugasemdarkerfi og teljara á síðuna mína, haa. Hann er sko minn tölvutöffari.
Nemendur hafa alltaf rétt fyrir sér?????
Í grunnskólum landsins virðist sú regla sem er við gildi í verslunum að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér verið útfærð þannig að nemandinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Í dag má afskaplega lítið segja við börnin af ótta við að segja eitthvað vitlaust. Ég læt mína nemendur ekki vaða uppi með yfirgang og frekju. Ég vinn með þeim en ekki á móti þeim. Kennari þarf að passa sig að segja ekki einhverja vitleysu og alls ekki koma við nemendur. Nú er ég ekki að tala um að refsa nemendum heldur bara létt klapp á öxlina, til að hrósa eða styðja. ,,Tendensinn" er sá að því fjarlægari sem kennari er því betra. Ég er ekki á því. Ég lít á minn 7.bekk sem mína krakka og vill að þau standi sig. Ég er ekki í uppeldisthlutverki heldur í hlutverki kennara. Það er stór munur þar á. Agaleysi er mikið í grunnskólum landsins og það tel ég vera vegna aukinnar undanlátssemi kennara. Kennarar þora ekkert að segja því ekki vilja þeir fá foreldra og nemendur á móti sér. Agaleysi í skólum er oft á tíðum vegna agaleysis heimafyrir. Börn fá ALLT nú til dags. Þeim er refsað með gjöfum. Það er að segja þau fá t.a.m. playstationleik ef þau verða góð. Svo verða þau góð og fá leikinn en nokkrum dögum seinna verða þau óþekk svo að foreldrar geti sagt: ,,Ef þú verður góð/ur færðu tölvuleik" o.s.frv. Þetta er fáránlegur vítahringur. En svona eru mínar hugleiðingar þennan ágæta þriðjudag.
Lifið heil.
Jóladagatal
Hvernig er það eiginlega, ganga Lionsmenn ekki í hús og selja jóladagatöl? Nú fer að líða að 1.des og mig vantar dagatal, þetta gengur ekki................

Monday, November 25, 2002

The Shipping News
Þó svo að það sé mikið að gera er ég enn á fullu í kvikmyndum enda eitt af mínum áhugamálum. Ég hef lagt það í vana minn á þessu bloggi að tala um áhugaverðar kvikmyndir sem ég ÆTLAST til að þið sjáið. Ég vona að þið hafið farið að mínum ráðum og séð Das Experiment í bíó. Allavega, í gærkvöldi kom ég mér vel fyrir ásamt Önnu minni uppi í sófa og horfði að kvikmyndina The Shipping News með Kevin Spacey. Hér er á ferðinni fyrirtaks drama. Landslagið í myndinni í myndinni er stórbrotið, hefði allt eins getað verið tekin hér á Íslandi. Allavega mæli ég með þessari mynd. Fínasta mynd svona í skammdeginu.Álag
Það er mikið álag á okkur skötuhjúum þessa dagana. Það er alltaf mikið að gera í grunnskólum þegar jólin nálgast + ég þarf að taka eitt próf. Anna mín er á 3.ári í sálfræði og próf og skil verkefna hellast yfir hana eins og steypiregn þannig að það er mikill álagstími framundan. Það verður ljúft að komast í jólafrí. ,,Er líða fer að jólum....." söng Ragnar Bjarnason í gamla daga.
Þemavinna
Nemendum finnst alltaf gaman þegar hefðbundið skólastarf er brotið upp með þemavinnu. Í þessari viku eru nemendur í 7.bekk að vinna með dagblöð. Allir nemendur er áskrifendur og fá send DV og Moggann. Svo vinnum við með blöðin, klippum og límum, skrifum og tölum. Mikið líf, það er nú gaman að þessu, ha.

Sunday, November 24, 2002

Bolvíkingar
Enn bætast Bolvíkingar í bloggheiminn, nú eru það Anna Sigga (bekkjarsystir mín frá því í grunnskóla) og Baldur hinn blái (sjálfstæðismaður) sem hafa bæst í hópinn. Ég fagna því. Best að linka á þau.
Fróðleikur á sunnudegi
Nú er komið að hinum sívinsæla þætti á Valdabloggi - fróðleikur á sunnudegi.
Vissu þið........
...........að Eiríkur Rauði var pabbi Leifs (ó)heppna?
...........að hljómsveitin Lúdó og Stefán hét einu sinni Plútó?
...........að þjóðfundurinn var 1851 - Vér mótmælum allir - ?
...........að Elvis Presley var tvíburi?
...........að stórsöngvarinn Alfreð Clausen lést árið 1980?
...........að Heimastjórnarflokkurinn fékk 5333 atkvæði í kosningunum 21.október árið 1916?
...........að Geir Vídalín var biskup árin 1801 - 1823?
...........að Kristján X var síðasti konungur yfir Íslandi?
Laugardagskvöld
Ég og hún Anna mín fórum í smá partý í gærkvöldi, það var alveg stórfínt. Við ætluðum svo í bæinn að hitta Jóhann stórvin okkar en því miður varð ekkert úr því, alveg er maður voðalega lélegur að fara í bæinn. Þessi miðbær hefur voða lítið aðdráttarafl að mínu mati, hef miklu meira gaman að því að sitja í heimahúsi í góðra vina hópi.
Guðmundur vinur minn Sveinsson sendi mér sms í gærkvöldi og hringdi ég í hann. Ég talaði við Gumma, Hjalta og Marinó og við ákváðum allir að á næstu önn ætluðum við að hafa karlakvöld með dinner og tilheyrandi, vona ég að það geti orðið að veruleika. Blöndum okkur Castro Cola og höfum það gott.