Thursday, November 07, 2002

Dóra systir.............
.........eða Halldóra Friðgerður Víðisdótti er að koma í heimsókn að norðan í kvöld. Hún mun gista hjá mér og Önnu að Eggertsgötu 4. Halldóra stundar nám við MA (auðvitað) og mun útskrifast þaðan í vor. Nonni bróðir var í MA, ég og svo er bara að vona að Stella litla systir drífi sig í þennan ágæta skóla. Allavega, búðarráp og rölt á Halldóru þessa helgina..........

Kaffihúsasálfræði
Hún Guðrún Birna var fljót til og svaraði af sinni einskæru röggsemi því sem ég skrifaði um Oprhu vinkonu hennar. Hún Oprha tekur það ekki í mál að borga fólki sem kemur í þáttinn til hennar, það er bara góð auglýsing fyrir það fólk eins og hún komst að orði einhvern tímann. Ég efast um að þessi kaffihúsasálfræði sé að virka sem hún Oprha er að predika. Hún minnir mig stundum á Benny Hinn, kemur inn með glans og segir fólki það sem það vill heyra. Allir hálfgrenjandi af geðshræringu. Auðvitað eru þetta viðkvæm mál og alvarleg, ég er ekkert að efast um það. En ég efast um að Oprha sé að gera þessum málum góð skil. Ég tek meira mark á fréttaskýringaþáttum og heimildarmyndum þar sem fólk lifir sig inn í aðstæður, en fær það ekki í sófann í stóru vernduðu kvikmyndaveri. Oprha er óhollt sjónvarpsefni. Því miður......................
Republikanar
Ótvíræðir sigurvegarar kosninganna í Bandaríkjunum. Nú ætti George W. Bush að koma sínum málum áfram þar sem Republikanar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni. Í öldungadeildinni sitja 100 þingmenn og Republikanar hafa 51, og í fulltrúadeildinni sitja á fimmta hundraðið. Ég veit eiginlega ekki hvar ég stend í þessu máli. Ég hef nú yfirleitt hallast frekar á sveif með Demókrötum en samt er ég sáttur við Bush. Núna getur Bush komið sínum málum áfram, t.d. skattamálum og málefnum tengdum Írak. Ég er samt á því að hann verði að hafa aðhald frá þinginu. Núna er það aðhald ekki til staðar. Ég hugsa að tíminn muni leiða í ljós hvaða áhrif þetta hefur. Verðum nú að gefa þessu séns áður en við segjum helvítis Republikanar. Ég er því tvístígandi í þessu öllu saman. Vonum bara hið besta...................

Kúgun kvenna
Í gærkvöldi var glansþátturinn með henni Oprhu sýndur á stöð 2. Ég hef aldrei haft mikið álit á þessum þætti og ekki batnaði það við þáttinn í gærkvöldi. Oprha var að tala um mjög alvarlega hluti sem er kúgun kvenna, m.a. í Nígeríu þar sem grýta á konu til dauða fyrir það eitt að eignast barn utan hjónabands. Það eru mjög alvarlegir hlutir. 60 mínútur hafa gert þessu máli góð skil en Oprha gerði það ekki. Oprha er launahæsti einstaklingurinn í Hollywood, launin sem hún fær fyrir hvern þátt eru stjarnfræðileg. Hvernig stendur á því að hún gefur ekki eitthvað af þessum auðæfum til mannréttindamála? Í þættinum var talað um það að kona sem á 7 börn getur lifað á 100 dollurum á mánuði. Ef Oprha tæki sig til gæti hún bjargað hundruðum. Ef hún gæfi brot af launum sínum til þessara mála kæmist það í heimsfréttirnar en það hefur ekki gerst. Til að kóróna þáttinn fékk hún ríkustu konuna í Pakistan í viðtal af því hún átti svo bágt. Það var nú til að fullkomna hræsnina. Oprha er ekki rétta manneskjan til að tala um þessi mál. Auðviðað þarf að vekja máls á þessu en hræsnarinn hún Oprha ferst það illa úr hendi.
Lifið heil.

Wednesday, November 06, 2002

Erfiður dagur
Það er svakalega mikið að gera í dag. Hef varla tíma til að borða. Það er undirbúningur, verkefnavinna, fundir og ég veit ekki hvað og hvað. Já, það er mikið en skemmtilegt starf að vera kennari á Íslandi í dag. Verst hvað launin eru lág eins og ég kem að í öðru hverju bloggi. Það var töluverður galsi í mínum krökkum í dag. Mikill hiti í umræðum um Árna Magnússon. Sumir voru á því að handritin hefðu enga þýðingu fyrir okkur Íslendinga, það sem skipti mestu máli væri gott sjónvarp og playstation tölva. Það voru vægast sagt líflegar en skemmtilegar umræður. Go Árni Magg.................

Tuesday, November 05, 2002

Árni Magnússon.......
........var merkilegur maður. Hann kom hingað til lands frá Danmörku árið 1702 ásamt Páli Vídalín. Þeir gerðu meðal annars fyrsta manntalið sem vitað er að hafi verið gert í heiminum. Sennilega er hann þekktastur fyrir handritasöfnun sína en því miður brann mikið af þessum handritum í Kaupmannahafnarbrunanum árið 1728. Vona bara að nemendur mínir átti sig á hversu merkilegur maður Árni var. Vona að ég komi því til skila..........
Smá fróðleikur á þessu ósjónvarpsvæna kvöldi. Ása og Guðrún- Amy er ekki alveg að gera sig. Lesið frekar allt um hann Árna vin okkar.
Mojo
Hvað er með hann Mojo vin minn. Hann hefur ekki bloggað mjög lengi. Farðu nú að hífa þig upp á afturlappirnar og tjá þig, þetta gengur ekki.
Langur dagur
Þriðjudagar eru mjög langir dagar. Að vísu eru þeir ekki lengri en aðrir dagar en í vinnulegu tilliti eru þeir langir. Það er kennsla, undirbúningur og svo fundir. Mikið af þeim. Þriðjudagar eru kennarafundardagar og þeir geta dregist. Annars hafa kennarar allt of lág laun eins og ég hef komið að einu sinni eða tvisvar.....................

Monday, November 04, 2002

Íslenski óskarinn...........
.........(eða Eddan eins og það heitir víst) verður veittur í næstu viku. Þá verður maður nú að fylgjast spenntur með. Ég vona að Hafið vinni þetta í ár sem besta myndin og að Gunnar vinur minn Eyjólfsson taki íslenska óskarinn fyrir aðalhlutverk. Hafið er frábær kvikmynd sem ég sá 2 í bíó og langar aftur. Ég hef ekki séð Fálka og mig langar eiginlega ekkert til þess. Ég vona að Þorsteinn Guðmundsson hirði verðlaunin fyrir aukahlutverk í myndinni Maður eins og ég. Hann fer á kostum í þeirri mynd. Herdís Þorvaldsdótti hlýtur að fá hinn íslenska óskar fyrir túlkun sína á gömlu kerlingunni í Hafinu. Hægt er að fara á mbl.is og kjósa. Einnig hægt að kjósa sjónvarpsmann ársins og þar kaus ég hann Vilhelm Anton Jónsson vin minn sem besta sjónvarpsmanninn.
Lifið heil.
Imbakassinn
Mánudagskvöld eru fín sjónvarpskvöld. Fréttir á sínum stað og svo tekur Survivor við á Skjá 1 klukkan 20:00. Klukkan 20:50 byrjar svo Hafið bláa á RUV. Frábærir fræðsluþættir um lífið í sjónum. Mæli með þeim. Sá þáttur byrjar akkúrat þegar Survivor er búið. Svo er CSI á Skjá 1 klukkan 21:00 en maður þarf að sjá það endurtekið svo maður missi ekki af fræðsluþættinum, haaaaaa. Mættu hafa þriðjudagskvöldin svona góð líka. En þá er EKKERT í sjónvarpinu. Jú, að vísu horfir Ása og Guðrún Birna á hana Amy eða hvað hún heitir. Bölvuð sápa sá þáttur :)
Spiderman
Keypti mér Spiderman á VHS á föstudaginn. Er ekki orðin það tæknivæddur að hafa keypt mér DVD. Verð nú að fara að láta verða af því. Þá lendi ég kannski ekki í vandræðum með bévítans vídeóið. Ása lenti í vandræðum með sitt tæki, hugsa að myndbandstækin séu að gera uppreisn. Allavega þá er Spiderman fyrirtaksræma. Ég ætti að fara að opna vídeóleigu enda á ég fullt af myndum. Ef þið viljið leigja hjá mér Spiderman eða Lord of the Rings eða Armageddon eða..............þá hafið samband :). Vídeóleigan Valdaval á næsta horni.Sunday, November 03, 2002

Sunnudagur til...........
.........tja, man ekki alveg, en ég veit það er mánudagur til mæðu. Allavega, þá ætlaði ég að taka upp Neighbours á stöð 2 klukkan 12:00. Ég byrjaði að taka upp samviskusamlega. Allt átti að vera klappað og klárt. Svo um 13:00 skruppum við út með strákana til að fá okkur ís og kíkja á borg óttans þennan ágæta sunnudag. Ég er mjög eldhræddur og slökkti því á útvarpinu, tölvunni og á helv.....afruglaranum. Þannig að ég náði bara 1 klst. af Neighbours í stað 2 klst. Er einhver þarna úti sem tók upp Neighbours? Þætti gaman að vita það. Ef svo er þá megi þið láta mig vita. Ég er pínu háður þessari bévítans sápu.


Svei mér þá
Í gær skrapp ég í Kolaportið ásamt henni Önnu minni og sonum hennar. Ég hafði ekki komið í Kolaportið í mörg ár. Þar inni er mjög skrýtin stemmning, eiginlega hálf óþægileg stemmning. Fólk situr niðurlútt í básum og bíður þess að einhver sýni því áhuga sem það hefur uppá að bjóða. Það borgar sig ekki að vera of nálægt básunum því þá er maður étinn og kemst hvorki lönd né strönd. Leið svipað og á mörkuðunum úti í Mexíkó ,,special offer for you my friend". Vörurnar í Kolaportinu eru af öllum stærðum og gerðum. Það voru einstaka vörur sem gaman var að skoða en annars er þetta óttalegt drasl allt saman. Verðið er allavega ekki í samræmi við gæðin. Ég hélt að verðlagið í Kolaportinu væri lægra en gengur og gerist, en það er það ekki. Ég hafði ekki áhuga á að kaupa neitt þarna inni og rölti um og passaði að engin mundi fanga mig og draga mig inn í básinn. Ég komst að mestu óhultur út úr Kolaportinu. Já, ekki er öll vitleysan eins...........